
ÞSSÍ var Íslandi til sóma
Mæður og börn
Í Malaví innti ég evrópsku sendiherrana sérstaklega eftir hvað þeir teldu lykilinn að velgengni ÞSSÍ. Þeir töldu mikilvægast að ÞSSÍ kappkostaði að veita heimamönnum sem mesta hlutdeild í ákvörðunum um hvaða verkefni ætti að ráðast í, og jafnframt að rekstri þeirra. Auk þess nefndu þeir sérstaklega áhersluna á konur og sögðu aðdáunarvert hvernig ÞSSÍ einbeitti sér að mæðrum og börnum, heilsugæslu og menntun. Þessar áherslur, sögðu þaulvanir sendimenn Evrópu í Afríku, skildu eftir varanlegan ávinning.
Þetta var kjarninn í starfsemi ÞSSÍ. Hún lagði áherslu á þátttöku heimamanna, vann með grasrótinni, og veitti íslenskum þróunarpeningum í skynsamleg verkefni sem skiluðu árangri strax, eins og öflun hreins vatns, sem útrýmdi kóleru á starfssvæðunum í Malaví. Hún studdi við menntun barna, kenndi fólki að lesa, og vann kraftaverk í að koma á varanlegri heilsugæslu. Spítalinn, sem Íslendingar reistu við Monkey Bay og gáfu heimamönnum, er talandi tákn þess. Fæðingardeildirnar í Monguchi verða um langa framtíð óbrotgjarn minnisvarði um vel útfærða og skynsamlega stefnu í þróunarsamvinnu.
Sjálfum er mér ógleymanleg heimsóknin í örlitla fæðingardeild í rjóðri inni í miðjum skógi, þar sem smávaxin forstöðukona með drifhvítan kappa lýsti fyrir mér þeirri gjörbreytingu sem hafði orðið á högum kvenna á svæðinu eftir að deildin tók til starfa. Tæplega 20 þúsund börn höfðu þá komið farsællega í heiminn með íslenskri aðstoð. Hún sagði að konur kæmu tugi kílómetra til að fæða á þessum stöðum. Af tæplega fimm ára sögulegum ferli í utanríkisráðuneytinu standa mér ferskust í minni orð sem hún lét falla: „Börnin deyja ekki hjá okkur.“
Ógrunduð og óskiljanleg ákvörðun
Á sama tíma og skýrslur sýna að Ísland er orðið næstríkasta land í Evrópu er það Íslandi til vansæmdar að stjórnvöld hafa svarað vaxandi ríkidæmi með því að draga beinlínis úr fjárveitingum frá því sem Alþingi samþykkti einróma 2011. Það breytir þó engu um að ÞSSÍ reisti íslenska flaggið með glæsilegum hætti. Í því ljósi er sorglegt að stjórnvöld hafi hrapað að þeirri ákvörðun, án sjáanlegra raka, að leggja stofnunina niður. Um langa hríð verður það skólabókardæmi um ógrundaða og órökstudda ákvörðun.
Á þessum tímamótum er óhjákvæmilegt að undirstrika að faglegir sérfræðingar sem leitað var til lögðust gegn niðurlagningu ÞSSÍ. Félagsvísindasvið HÍ, þar sem mest fræðilegt atgervi er að finna um þróunarsamvinnu, taldi hana „bráðræði“ og lagði til að stofnunin yrði fremur efld. Í langri umræðu sem spannaði tvö þing voru að lokum hraktar allar fullyrðingar sem upphaflega voru settar fram sem rök fyrir að leggja ÞSSÍ niður, s.s. „tvíverknaður“, skortur á „hagræðingu“ og að ÞSSÍ gengi ekki „í takt við utanríkisstefnuna“. Sjálft fjármálaráðuneytið lýsti skriflega yfir að ekki myndi sparast króna með aðgerðinni.
Samþykkt frumvarpsins var því miður dæmi um hvernig framkvæmdarvaldið er að snúa stjórnskipaninni á hvolf með því að taka yfir löggjafarvaldið og beitir flokksræði til að þrýsta í gegnum Alþingi ákvörðunum sem í reynd njóta þar ekki raunverulegs stuðnings.
Fyrirmyndarstofnun
Það sem aldrei deyr þó er góður orðstír. Það verður aldrei tekið frá ÞSSÍ, og starfsmönnum hennar, að þau hlutu fram á síðasta dag óskorað lof heima og erlendis fyrir góðan rekstur, nýmæli og frumkvæði í starfi. ÞSSÍ má óhikað telja til fyrirmyndarstofnana í íslenskri stjórnsýslu. Þegar horft er yfir glæsilegan feril hennar er óhætt að kveðja hana og starfsmenn hennar með því að segja:
Þið voruð Íslandi til sóma!
Skoðun
Opið bréf til ráðherranna Hönnu Katrínar og Ingu Sæland - blóðmeramálið
Árni Stefán Árnason skrifar

Vinnubrögð Carbfix eru ámælisverð
Ólafur Sigurðsson skrifar

Öllum til hagsbóta að bæta hag nýrra Íslendinga
Marta Wieczorek skrifar

Raunveruleg úrræði óskast takk!
Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

(Ó)merkilegir íbúar
Örn Smárason skrifar

Vangaveltur um ábyrgð og laun
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir skrifar

Gervigreind í daglegu lífi: 15 dæmi
Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar

Til hvers að læra iðnnám?
Jakob Þór Möller skrifar

Komir þú á Grænlands grund
Gunnar Pálsson skrifar

Ólöglegir ópíóðar: Skaðaminnkandi þjónusta bráðnauðsynleg
Ósk Sigurðardóttir skrifar

Hlustum á náttúruna
Svandís Svavarsdóttir skrifar

Skattheimta sem markmið í sjálfu sér
Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar

Tæknin hjálpar lesblindum
Guðmundur S. Johnsen skrifar

Tryggja þarf aðkomu sjómanna að fiskveiðiráðgjöfinni
Sigurjón Þórðarson skrifar

Opið bréf til Friðriks Þórs
Steven Meyers,Guðrún Elsa Bragadóttir,Ása Helga Hjörleifsdóttir,Brúsi Ólason,Erlendur Sveinsson,Heather Millard skrifar

Skjólveggur af körlum og ungum mönnum
Ólafur Elínarson skrifar

Menntamál eru ekki afgangsstærð
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

‘Vók’ er djók
Alexandra Briem skrifar

Er friður tálsýn eða verkefni?
Inga Daníelsdóttir skrifar

Kattahald
Jökull Jörgensen skrifar

Framtíðin er rafmögnuð
Jóhanna Hlín Auðunsdóttir skrifar

Ekki biðja um undanþágur heldur krefjast réttar samkvæmt EES-samningnum
Erna Bjarnadóttir skrifar

Þjóðarmorðið í blokkinni
Bjarni Þór Sigurbjörnsson skrifar

Breiðholtið er frábært! Gerum betur í umfjöllun og orðræðu
Kristín Dögg Kristinsdóttir skrifar

Ég hataði rafíþróttir!
Þorvaldur Daníelsson skrifar

Því miður hefur lítið breyst
Áslaug Hulda Jónsdóttir skrifar

Versta sem Ísland gæti gert
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Eru græn svæði í útrýmingarhættu í Reykjavík?
Sigrún Ásta Einarsdóttir skrifar

Efla á forvarnir og setja börn í öndvegi með 5,7 milljarða niðurskurði
Grímur Atlason skrifar

„...ég lærði líka að nota gagnrýna hugsun“
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifar