Umræðurnar voru hluti af ráðstefnunni Iceland Tourism Investment sem fram fer í Hörpu í dag og á morgun. Til máls tóku þau Ali Gayward frá EasyJet, Christine Kennedy frá Delta, Daníel Snæbjörnsson frá WOW og Guðmundur Óskarsson frá Icelandair.
Ali Gayward sagði að Ísland hefði í fyrstu verið erfitt að markaðssetja, ekki síst vegna þess að ferðamálafélög á borð við Íslandsstofu hefðu ekki greitt götu EasyJet nægilega vel.
Sjá einnig: Isavia spáir 470.000 fleiri ferðamönnum

Hún bar þá stuðning á Íslandi saman við stuðning í Svartfjallalandi, þangað sem EasyJet mun hefja flug í næsta mánuði. Ríkisstjórn Svartfellinga sagði Gayward hafa sýnt mun meiri áhuga og stuðning en aðilar á Íslandi, hjálpað til við markaðssetningu og sýnt sveigjanleika í rukkun flugvallagjalda.
Christine Kennedy tók í sama streng.
„Á meðan ég hef unnið mjög náið með fólki á flugvellinum, þá þekki ég engan í ferðamálum á Íslandi,“ sagði hún. „Og það er mjög óvenjulegt fyrir mig. Þannig að þarna er hlekkur sem vantar.“
Sjá einnig: Flug í boði 25 félaga - voru átta fyrir áratug

„Hvar í heiminum fjölgar ferðamönnum hraðar en hér?“
Slíkur fulltrúi steig fram eftir að máli þátttakenda í umræðunum lauk, en Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, greip þá orðið og gerði athugasemdir við það sem þátttakendurnir höfðu sagt um stuðning frá ferðamálafélögum.

Hann benti á að rúmlega 25 flugfélög fljúgi nú til Íslands og að sjóðir Íslandsstofu hefðu fljótt tæmst ef styrkja hefði átt þau öll fjárhagslega á fyrstu árum þeirra hér á landi. Íslandsstofa hefði þó unnið náið með flugfélögunum síðustu ár og meðal annars hjálpað til að kynna starfsemi EasyJet fyrir fjölmiðlum hérlendis.
„Ég lít svo á að við eigum í mjög góðu og nánu sambandi við flugfélögin,“ sagði Jón að lokum. „Og skoðið það bara, hvar í heiminum fjölgar ferðamönnum hraðar en hér? Mér finnst það segja talsvert um nálgun okkar.“