Skoðun

Jöfnuður eykst

Líneik Anna Sævarsdóttir skrifar
Það er virkilega ánægjulegt að verða vitni að vaxandi jöfnuði í samfélaginu. Heimilum sem þurfa fjárhagsaðstoð hefur fækkað milli áranna 2013 og 2014. Árin þar á undan fjölgaði heimilum sem þurftu fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum en milli áranna 2013 og 2014 varð viðsnúningur og heimilum sem fá fjárhagsaðstoð fækkar. Þetta helst í hendur við þróun í átt að auknum tekjujöfnuði en tekjur hafa ekki dreifst jafnar milli fólks hér á landi frá því mælingar Hagstofunnar hófust árið 2004.

Hlutfall landsmanna með tekjur undir lágtekjumörkum hefur dregist saman og aðeins einu sinni á síðustu 10 árum hafa jafn fáir mælst undir lágtekjumörkum, samkvæmt nýbirtum Félagsvísum velferðarráðuneytisins og Hagstofu Íslands 2015.Það er ávallt ánægjulegt þegar hagur heimilanna batnar. Þessi bætta staða er afleiðing margra samverkandi þátta en ætla má að atvinnumöguleikar og aukin áhersla á velferð vegi þar nokkuð. Frá árinu 2013 hafa skapast um 15.000 ný störf og mælist atvinnuleysi á Íslandi nú það minnsta í Evrópu eða 3,6%, samkvæmt tölum Eurostat sem birtar voru í byrjun febrúar. Til samanburðar mælist atvinnuleysi að meðaltali um 9% í Evrópusambandslöndunum. Þetta er magnaður árangur ef við lítum til þess að árið 2010 mældist atvinnuleysi hér á landi 7,6%.

Á síðustu árum hefur ríkisstjórnin ráðist í aðgerðir með það að leiðarljósi að auka velferð í samfélaginu og fleiri verkefni eru í farvatninu. Gerðar hafa verið breytingar á skattkerfinu, þannig hafa skattleysismörk og persónuafsláttur hækkað sem skilar sér í auknum ráðstöfunartekjum. Vörugjöld hafa einnig verið afnumin og skattar lækkað. Nú er til umræðu í velferðarnefnd frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem fjallar um uppbyggingu félagslegra leiguíbúða fyrir efnaminni fjölskyldur. Markmið þeirrar vinnu er að bæta húsnæðisöryggi þessa hóps með auknu framboði á hagkvæmu leiguhúsnæði þar sem húsnæðiskostnaður verði í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Auk þess er stefnt að breytingum á húsnæðisbótakerfinu, á þann hátt að húsnæðisstuðningur verði aukinn og grunnfjárhæð húsnæðisbóta og frítekjumörk hækkuð. Með fyrrnefndum aðgerðum eykst stuðningur enn frekar við þá sem minnstar hafa tekjurnar. Fólk sem fest hefur í fátækragildru fær þá möguleika á að komast í þá stöðu að ná endum saman í lok hvers mánaðar og leggja fyrir.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×