Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum í skýjunum eftir 4-3 sigur Rauða hersins á Borussia Dortmund í kvöld.
Liverpool lenti í tvígang tveimur mörkum undir en átti magnaðan endasprett, skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og tryggði sér sigurinn og farseðilinn í undanúrslit Evrópudeildarinnar.
„Það er erfitt að útskýra þetta. Þetta var dásamlegt kvöld en leikurinn var skrítinn allt frá byrjun,“ sagði Klopp eftir leik.
Þjóðverjinn gerði tvöfalda skiptingu eftir rúman klukkutíma, í stöðunni 1-3, og setti þá Daniel Sturridge og Joe Allen inn á í stað Roberto Firmino og Adam Lallana. Þetta herbragð Klopp heppnaðist fullkomlega því aðeins nokkrum mínútum síðar minnkaði Philippe Coutinho muninn í 2-3 og kom Liverpool aftur inn í leikinn.
„Við sendum þá inn á með þau skilaboð að liðið yrði að sýna karakter, alveg sama þótt það tapaði, og leikmennirnir gerðu það og gott betur,“ sagði Klopp.
„Þetta var stórkostlegt. Þetta var Evrópufótbolti eins og hann gerist bestur. Upplifunin var mögnuð og ég á erfitt með að trúa þessu,“ bætti sá þýski við.
Klopp: Dásamlegt kvöld

Tengdar fréttir

Meistararnir áfram eftir vítaspyrnukeppni | Sjáðu öll mörkin í Evrópudeildinni
Seinni leikirnir í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar fóru fram í kvöld.