Pedro Agramunt hefur sagt af sér sem forseti forsætisnefndar Evrópuþingsins vegna ásakana um spillingu. Rannsókn stendur yfir á því hvort að fulltrúar í nefndinni hafi gert stjórnvöldum í Aserbaísjan greiða í skiptum fyrir gjafir.
Forsætisnefndin hefur meðal annars það hlutverk að hafa eftirlit með mannréttindamálum en undir forsæti Agramunt hafnaði hún skýrslu um pólitíska fanga í fyrrum Sovétlýðveldinu Aserbaísjan fyrir fjórum árum.
Grunur leikur á að fulltrúa Asera hafi haft áhrif á nefndarmenn með því að gefa þeim gjafir. Evrópuþingmenn höfðu krafist afsagnar Agramunt.
Hinn spænski Agramunt hafði einnig legið undir gagnrýni fyrir heimsókn til Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í fylgd með rússneskum þingmönnum í mars. Stjórn Assad hefur verið sökuð um stórfelld mannréttindabrot í borgarastríðinu sem hefur geisað í landinu í rúm sex ár.
Bretinn Roger Gale mun taka tímabundið við stöðun Agramunt, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Forseti forsætisnefndar Evrópuþingsins segir af sér vegna hneykslismáls
Kjartan Kjartansson skrifar
