Heildarfjöldi þeirra sem mætt hafa á staðinn og kosið utan kjörfundar á landinu er 29.150 nú skömmu fyrir klukkan 11 í dag.
Þetta segir Bergþóra Sigmundsdóttir, sviðsstjóri þinglýsinga og leyfasviðs hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir að með aðsendum atkvæðum sé fjöldi atkvæða rúmlega 33 þúsund.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á höfuðborgarsvæðinu hefur farið fram í Smáralind og segir Bergþóra að mikill straumur fólks hafi lagt leið sína þangað.
Hún segist ekki vera með nákvæmar tölur um hve margir hafi kosið utan kjörfundar á sama tíma fyrir þingkosningarnar í fyrra en að þeir séu talsvert fleiri nú. Hún segir að ástæðurnar kunni að vera margvíslegar – nú sé rjúpuhelgi og þá virðast hlutfallslega fleiri úr Kópavogi hafa kosið utan kjörfundar en á sama tíma í fyrra.
Vetrarfrí er nú í skólum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði sem kann sömuleiðis að hafa áhrif á hvort íbúar þar kjósi utan kjörfundar.
Alls greiddu 31.558 atkvæði utan kjörfundar í alþingiskosningunum 2016.
Utankjörfundaratkvæðin umtalsvert fleiri en á sama tíma í fyrra
Atli Ísleifsson skrifar
