Red Bull liðið tilkynnti í dag að einn eftirsóknarverðasti ökumaðurinn í Formúlu 1, Max Verstappen hafi skrifað undir nýjan samning við liðið. Hann verður í herbúðum þess út árið 2020.
Verstappen kom til Red Bull liðsins frá systur liðinu, Toro Rosso fyrir spænska kappaksturinn 2016 þar sem hann gerði sér lítið fyrir og vann sinn fyrsta kappakstur.
„Ég fékk tækifæri í akademíunni hjá þeim þegar ég var 16 ára og svo tækifæri í Formúlu 1 þegar ég var einungis 17 ára. Svo fékk ég tækifæri með Red Bull í framhaldinu og náði sannkallaðri draumabyrjun,“ sagði Verstappen.
„Hann er hreinræktaður keppnismaður, með ótrúlega hæfileika og mikið innsæi fyrir því hvað þarf til að hafa stöðugleika í Formúlu 1. Hann hefur mikinn aga til að vinna að því sem þarf og er þroskaður í nálgun sinni á íþróttina,“ sagði Christian Horner keppnissjtóri Red Bull.

