Skoðun

Aukið fjármagn til NPA – Flýtum aðgerðum

Ásmundur Einar Daðason skrifar
Aukið frelsi, betri möguleikar til að ráða lífi sínu, stóraukin tækifæri til sjálfstæðs lífs og til virkrar þátttöku í samfélaginu, þetta eru þau einkunnarorð sem fatlað fólk sem reynt hefur, gefur NPA-þjónustuforminu, þ.e. notendastýrðri persónulegri aðstoð.

Fyrir jól lagði ég fram á Alþingi frumvarp til nýrra heildarlaga sem kveða á um þjónustu við fatlað fólk sem þarf á miklum stuðningi að halda og frumvarp um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að lögfesting NPA á grundvelli þessara frumvarpa geti tekið gildi um mitt næsta ár. Til að brúa bilið lagði ég einnig fram frumvarp sem á að tryggja að unnt verði að veita NPA þjónustu á grundvelli samninga fram að gildistöku heildarlaganna.

Fjölgun samninga – 70 milljóna aukafjárveiting

Við vinnslu málsins á Alþingi lagði stjórnarmeirihlutinn til aukningu á framlagi til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar um 70 m.kr., umfram það sem áður var gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Framlög til NPA-þjónustu verða þar með 140 m.kr. hærri á næsta ári en í fjárlögum þessa árs, eða samtals 360 m.kr. Af þeirri aukningu sem nú hefur verið ákveðin eru 30 m.kr. ætlaðar til þjónustu við þá sem þurfa á sólarhringsmeðferð í öndunarvél að halda.

Þetta eru mjög jákvæðar fréttir enda er með þessu fjármagni óhætt að tala um straumhvörf, því unnt verður að fjölga verulega samningum um notendastýrða persónulega aðstoð. Þessi ákvörðun endurspeglar einnig áherslur nýrrar ríkisstjórnar  að flýta öllum aðgerðum sem tengjast málefnum fatlaðs fólks.

Náum samstöðu um að flýta aðgerðum

Þau lagafrumvörp er varða málið eru komin til velferðarnefndar Alþingis. Þar er ég viss um að nefndarmenn taki höndum saman um að leiða þetta mikilvæga mál til lykta, hratt og örugglega í góðu samstarfi við helstu hagsmunaaðila og þvert á stjórnmálaflokka. Þetta er ekki aðeins mikilvægt hagsmunamál fatlaðs fólks, þetta er mál sem snýst um mannréttindi og að við sýnum í verki vilja okkar til að stuðla að jöfnum tækifærum fatlaðs fólks og ófatlaðra í samfélaginu eins og kostur er.

Höfundur er félags- og jafnréttismálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×