Með þessum árangri er Ferrari-ökuþórinn nú þegar kominn með 17 stiga forskot á aðalkeppinaut sinn, ríkjandi heimsmeistarann Lewis Hamilton hjá Mercedes. Því er öll pressan á Hamilton um helgina en Mercedes liðið hefur yfirleitt staðið sig mjög vel á Sjanghæ-brautinni í Kína.
Hamilton á einnig flesta sigra á brautinni sem var tekin í notkun árið 2004. Brautin er tæknilega krefjandi fyrir ökumenn og fyrsta beygjan er ein sú erfiðasta í mótinu - löng hægri beygja sem kreppist meira og meira.
Þó að Ferrari hafi haft betur gegn Mercedes í fyrstu tveimur keppnum ársins er ljóst að hraði þessara liða er áþekkur. Búist var við því fyrir tímabilið að Red Bull myndu vera í þessum slag og á liðið enn möguleika á því þrátt fyrir hræðilega byrjun á tímabilinu.
Eins og alltaf í þessari íþrótt er nær ómögulegt að spá fyrir um hvernig baráttan um miðjan pakkan verður. Þar hafa Haas, Renault og McLaren verið þau lið sem eru hvað líklegust til að ná árangri en frábær úrslit Toro Rosso í Barein gætu þýtt að ítalska liðið er komið til að vera í þessum slag.
Hvað gerðist í fyrra?

Það má þó ekki búast við rigningu í kappakstrinum um helgina þó að það gætu komið nokkrir dropar í tímatökum á laugardaginn.
Á æfingum fyrir Sjanghæ kappaksturinn er það Mercedes sem hafa haft yfirhöndina gegn Ferrari en það munar þó bara einum tíunda úr sekúndu á liðunum. Red Bull náði góðum árangri á þessum fyrstu æfingum og gæti vel verið að ökumenn liðsins, Daniel Ricciardo og Max Verstappen munu blanda sér í slaginn um fyrsta sætið.
Keppnin verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport um helgina og hefst útsending á kappakstrinum kl. 05:40 á sunnudag. Bein útsending frá tímatökunni hefst klukkan 05.50 í fyrramálið.