Ólafur Páll Snorrason, þjálfari Fjölnis, var í settinu hjá Pepsimörkunum á Stöð 2 Sport í gærkvöld og hann sagði einfaldlega að „þetta er ekki rangstaða. Það er bara augljóst mál.“
Sérfræðingarnir skoðuðu atvikið mjög vel og notuðu einnig tæknina til þess að hjálpa sér. Með rangstöðugreiningartólinu sást að Berisha var með annan fótinn rétt fyrir innan Morten Beck, aftasta varnarmann KR.
„Þetta er 99,9 prósent pottþétt,“ sagði Hörður Magnússon, stjórnandi þáttarins. „En ég er alveg sannfærður um það að línuvörðurinn hafi ekki séð Morten Beck,“ bætti hann við.
„Þetta er eitt af þeim atvikum þar sem línuvörðurinn gerir gríðarlega vel án þess að hafa séð það,“ tók Þorvaldur Örlygsson undir.