Ástæðan er meðal annars svokölluð hellaveiki eða Histoplasmosis.

Sjúkdómurinn leggst aðallega á lungun og getur verið banvænn. Ástæðan fyrir því að hann herjar oft á fólk eftir hellaferðir er að sveppurinn þrífst sérstaklega vel í gúanói; driti úr leðurblökum. Leðurblökurnar geta líka borið sjúkdóminn.
Einkennin geta sem fyrr segir verið margvísleg en líkjast oft berklum eða slæmri öndunarfærasýkingu. Slæm útbrot eru algeng. Smám saman byrja önnur líffæri að bila og sjúklingurinn getur dáið ef hann fær ekki rétta meðferð.
Drengjunum er haldið í einangrun vegna þess að einkenni hellaveiki koma ekki fram fyrr en 3 til 17 dögum eftir sýkingu.

Fyrir utan hellaveiki geta margir aðrir sjúkdómar leynst í rökum hellum langt neðanjarðar. Þá þarf að tryggja að drengirnir fái rétta næringu og vatn til að jafna sig eftir vistina.
Síðast en ekki síst er það andlega heilsan sem þarf að huga að. Það má ekki gleyma því að maður lét lífið við það að kafa með súrefni til drengjanna og öll heimsbyggðin fylgdist með málinu. Í Taílandi tröllreið umfjöllun um málið öllum fjölmiðlum dögum saman.
Álagið sem fylgir þessu öllu saman muni líklega ekki gera sín vart fyrr en lengra er liðið, sérstaklega ef litið er til þess að um börn er að ræða og þau geta tekið lengri tíma í að vinna úr áföllum.
Það er því afar ólíklegt að læknar gefi grænt ljós á að drengirnir verði viðstaddir úrslitaleik HM í Rússlandi á sunnudaginn.