Það verður fjölbreytt úrval af erlendum myndum en áhersla er einnig lögð á að styðja við grasrótina í íslenskri kvikmyndagerð. Óhætt er að segja að RIFF sé mikilvægur vettvangur fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn til að kynna verk sín og áhugi erlendra gesta á henni leynir sér ekki.
„Í þetta skipti koma meðal annars leikararnir Mads Mikkelsen og Shailene Woodley og leikstjórarnir Jonas Mekas, Sergei Loznitsa og Laila Pakalnina. Þar er boðið upp á samtal milli áhorfenda og kvikmyndahöfunda. Það er einstakt tækifæri til þess að fá innsýn í þann spennandi og marglaga heim sem kvikmyndir eru. Við trúum því einlæglega að bíó breyti heiminum. Þegar ljósin slokkna í salnum leggjum við af stað í ferðalag og við kynnumst persónum og upplifum sögur sem veita okkur nýja sýn á heiminn.“
Börn fá innsýn í heim kvikmynda
Á RIFF er eitthvað fyrir alla, allt frá listrænum myndum hins sögufræga Jonas Mekas til sýninga á sjónvarpsþáttunum Big Little Lies. Til viðbótar við kvikmyndasýningar er pakkfull dagskrá af sérviðburðum, sem margir hverjir eru ókeypis. Á Hlemmi Square hóteli verður spennandi tónlistardagskrá alla daga hátíðarinnar og á Lofti Hosteli er fjölbreytt dagská af kvikmyndasýningum og pallborðsumræðum. Það er því eitthvað fyrir alla að finna sér á hátíðinni.Einnig verður eitthvað fyrir fjölskyldufólk og börn til að kynnast heimi kvikmyndanna.
„Það er gaman að segja frá því að í ár verður í samstarfi við Borgarbókasafnið, Bókasafn Kópavogs og Bókasafn Seltjarnarness vönduð dagskrá fyrir alla fjölskylduna, þar sem er boðið upp á hreyfimyndasmiðju fyrir börn auk stuttmyndasýninga. Þar fá börn tækifæri til að búa til sína eigin mynd,“ segir Þórey.
„Sunnudaginn 30. september verður fjölskyldudagur í Bíó Paradís, þar sem verður lögð sérstök áhersla á myndirnar Phoenix, Minding the Gap og The Stranger, sem er tilvalið fyrir ungmenni og foreldra að sjá saman.“