„Þessi hrygna í Eyjafjarðará veiddist um mánaðamótin ágúst- september og var komin áleiðis í þroskun hrogna. Við metum það eftir þroska hrognasekkja. Hefði þessi hrygna ekki veiðst þá er mögulegt að hún hefði getað hrygnt í ánni seint í haust,“ segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri og sérfræðingur ferskvatnsfiska hjá Hafrannsóknastofnun.
„Það er þekkt að fiskar af eldisuppruna hrygni seinna að haustinu en villtur lax. Þá eru til dæmi um að hrygnan róti upp öðrum hrognum á hrygningarstað þar sem aðrir fiskar eru farnir af svæðinu og eru ekki til staðar til að verja sitt.“

„Eins og Hafrannsóknastofnun hefur bent á er þetta langt innan allra áhættuviðmiða í útreikningum þeirra. Af þeim 50 til 55 þúsund löxum sem hafa veiðst í íslenskum ám hafa sex laxar komið á land sem mögulega eru úr eldi,“ segir Einar. „Það er lítið brotabrot og ljóst að áhrifin eru ekki merkjanleg á lífríkið. Ég tel að þessar fréttir gefi ekki tilefni til að hafa áhyggjur af stöðu villta laxastofnsins, öðru nær.“
Vitnar Einar þar til fréttar á vef Hafrannsóknastofnunar þar sem kemur fram að þessi fjöldi eldislaxa í ám sé í samræmi við það sem áhættumat um erfðablöndun gerir ráð fyrir miðað við núverandi umfang sjókvíaeldis.
„Við vitum nú með vissu að fjórir eldislaxar hafi veiðst í íslenskum ám í sumar. En einnig eru nokkrir fiskar til rannsóknar hjá okkur sem bera einkenni þess að geta hafa verið í eldi. Því getum við ekki með vissu sagt hversu margir eldislaxar hafi veiðst hér á landi í sumar,“ bætir Guðni við.

Fiskeldi vaxandi iðnaður
Fiskeldisfyrirtæki landsins hafa sótt um leyfi til að framleiða yfir 150 þúsund tonn af fiski á hverju ári en nú eru um 15.000 tonn framleidd. Þar eru Arnarlax, Fiskeldi Austfjarða, Arctic Sea Farm og Laxar fiskeldi stærstu sjókvíaeldisfyrirtækin.Landssamband fiskeldisstöðva telur gjaldeyristekjur þjóðarinnar af greininni vera um 15 milljarða. Sú tala verði komin í 50 milljarða innan fárra ára.
Vöxtur greinarinnar er mestmegnis bundinn við sjókvíaeldi og svæðin hér á landi sem skilgreind hafa verið sem svæði fyrir þann iðnað eru þrjú: Austfirðir, Vestfirðir og Eyjafjörður.