Til að minnast uppreisnarinnar við Stonewall í Christopher street í New York mun WorldPride, stærsti hinsegin viðburður í heimi, fara fram í New York í júní 2019 og má búast við milljónum þátttakenda að því er segir í tilkynningu frá Hinsegin dögum í Reykjavík.
Undanfarin ár hafa Hinsegin dagar staðið í sex daga og viðburðir verið allt að þrjátíu.

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, segir að framundan sé svo sannarlega stórt ár.
„Það hefur gríðarlega margt áunnist frá því að Hinsegin dagar voru fyrst haldnir, svo ekki sé minnst á þann tíma sem liðinn er frá Stonewall uppreisninni. Af þessu tilefni viljum við því lengja hátíðahöld tengd Hinsegin dögum. Með því gefst okkur ekki bara svigrúm til að bjóða upp á enn fleiri fræðsluviðburði en áður heldur einnig fleiri og stærri kvöldviðburði á borð við tónleika, dragsýningar og dansleiki.“
Gunnlaugur segir markmiðið sem fyrr að þakka fyrir þann árangur sem náðst hafi en um leið auka sýnileika hinsegin fólks og halda baráttunni áfram enda séu margir sigrar enn óunnir.
„Að þessu sinni munum við þó gæta þess enn betur en áður að fagna og halda á lofti þeirri gleði sem einkennt hefur gleðigönguna frá upphafi. Það er nefnilega ekki alvöru afmæli án gleði þó svo að árin á undan hafi ekki endilega verið eintómur dans á rósum.”