Upphafið má rekja til þess að þýska brugghúsið Wacken Brauerei sendi lögfræðibréf til Borgar Brugghúss þar sem krafist var tafarlausrar stöðvunar á notkun vörumerkisins Surtur. Vörumerkið er eitt það þekktasta sem komið hefur frá Borg sem selur bjór undir því nafni í kringum þorrann ár hvert.
Þýsku bruggararnir höfðu skráð vörumerkið Surtr hjá Evrópusambandinu árið 2016 og hugðust leita réttar síns vegna skráningarinnar, þrátt fyrir að Borg hefði notað vörumerkið frá upphafi árs 2012.
Árni segir að þegar Borg hafi verið að setja sig í stellingar til að semja svar hafi Þjóðverjarnir dregið aðeins í land. „Það var hálf vandræðalegt og óþýskt að bakka svona þannig að við buðum þeim bara að gleyma þessu máli og koma frekar í heimsókn til Íslands og búa til bjór. Þeim leist vel á það, enda fátt leiðinlegra en lögfræði, og voru svo bara mættir til Reykjavíkur að brugga fljótlega eftir sumarfrí,“ segir Árni.

Í kringum svona verkefni er hefð fyrir því hvernig nafn er valið og hvernig heildarhugmyndin muni líta út. „Slíkt verður venjulega til á bruggdegi þegar menn ná tíma saman í brugghúsinu og er gjarnan einhver einkahúmor eða stemming sem myndast á staðnum. Þetta var erfið fæðing að þessu sinni og Helge fór af landi brott áður en við náðum að ákveða nafn.
Að þessu sinni var það jú lögfræðibrölt vegna nafnadeilna sem var hin raunverulega kveikja að verkefninu – okkur fannst því eðlilegt að nafnið fangaði það og enduðum á að stela nafni frá Wacken á bjórinn, sem heitir þá Haustrunk, eftir bjór frá Helge og félögum,“ segir hann og hlær. „Tíminn verður svo að leiða í ljós hvort við eigum von á öðru bréfi á næstunni.“