Æfing íslenska liðsins seinkaði aðeins og því tóku fjölmiðlar viðtöl við þá sem óskað var eftir um klukkan 19.00 en æfingin fór svo af stað 19.15. Þýska liðið var á æfingu á undan því íslenska og voru fagnaðarfundir hjá mörgum leikmönnum þjóðanna.
Bjarki Már Elísson og Silvio Heinevetter, leikmenn Füchse Berlín, féllust í faðma og fóru aðeins yfir málin og Arnór Þór Gunnarsson spjallaði einnig við þýska markvörðinn. Arnór ekki samherji hans en hefur spilað margsinnis á móti honum.
Oliver Roggisch, liðsstjóri eða eiginlegur framkvæmdastjóri þýska liðsins, þekkir marga af Íslendingunum en hann spjallaði í smá stund við Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara Íslands. Guðmundur þjálfaði hann hjá Rhein-Neckar Löwen.
Þá fór vel á með þeim Stefáni Rafni Sigurmannssyni og Roggisch en þeir spiluðu saman þegar að Guðmundur sótti Haukamanninn til þýska liðsins á sínum tíma. Stefán Rafn spilar nú með ungverska stórliðinu Pick Szeged.
Þrátt fyrir þessa fagnaðarfundi í dag má búast við minni hamingju á milli manna annað kvöld þegar að leikurinn hefst en þar eru gríðarlega mikilvæg tvö stig í boði.


