Úrskurðarnefnd jafnréttismála hefur nú til meðferðar kæru Ólínu Þorvarðardóttur sem telur að fram hjá sér hafi verið gengið við skipun þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum í fyrra. Þetta staðfestir Ólína við Vísi.
Einar Á. E. Sæmundsen var skipaður þjóðgarðsvörður í október síðastliðnum en hann hafði þá gegnt starfinu í ár eftir að forveri hans Ólafur Örn Haraldsson lét af störfum sökum aldurs.
Þingvallanefnd er skipuð sjö alþingismönnum. Greiddu fjórir atkvæði með Einari en þrír með Ólínu. Þau tvö þóttu hæfust tuttugu umsækjanda um starfið.
„Ég velti því fyrir mér hvað kona þurfi að gera til þess að eiga almennt tilverurétt á vinnumarkaði. Góð menntun (doktorspróf), mikil stjórnunarreynsla (samanlögð 10 ár), víðtæk reynsla yfirleitt (úr sveitarstjórn, af alþingi, af skólamálum, vísindastarfi, ritstörum) ekkert af þessu hefur neitt gildi þegar upp er staðið. Ekki heldur þó að beinlínis sé kallað eftir þessari reynslu við auglýsingu starfs. Ekki ef mót-umsækjandinn er karlmaður með réttu vinatengslin,“ sagði Ólína þegar tilkynnt var um ráðninguna í október.
Hafði hún ýmislegt við ráðninguna að athuga og sagði umhugsunarvert að þingvallanefnd, sem áður hefði beðið Einar um að standa vaktina eftir brotthvarf Ólafs Arnar, stæði sjálf að ráðningunni. Þá var hún ósátt við að Páll Magnússon hefði ekki verið viðstaddur kynningu hennar á lokastigum umsóknarferlisins.
