Það eru garðyrkjufræðingarnir Lára Jónsdóttir og Vilmundur Hansen sem fræða þátttakendur á líflegan hátt eina kvöldstund; uppbókað er á næsta námskeið nú á fimmtudaginn en skráning hafin á aukanámskeið þann 7. mars næstkomandi.
Lára segir vinsældir pottaplantna hafa aukist jafnt og þétt síðustu tvö ár eftir að hafa dalað upp úr árinu 2000. „Með tilkomu Instagram, bloggsíðna, Youtube og þess háttar fær fólk aftur á móti hugmyndir og áhuga. Vel hirtar pottaplöntur eru mublur ef þeim er valinn réttur staður, rétt birta, og vökvun og það hefur verið virkilega gaman að sinna þessum áhuga.“

Aðspurð hvaða plöntur njóti mesta vinsælda þessa dagana telur Lára upp bæði kunnugleg og framandi nöfn fyrir leikmanninn. „Kaktusar og þykkblöðungar eru vinsælir, friðarlilja einnig en hún er lofthreinsandi, rifblaðka hefur slegið í gegn sem og indjánafjöður sem er á lista NASA yfir plöntur sem hreinsa loftið. Drekatré eru svo til í mörgum gerðum og erum mjög duglegar plöntur. Einnig mætti nefna sómakólf og yukku svo dæmi séu tekin.“
En hvað ætli sé mikilvægast að hafa í huga? „Það þarf smá reglu í umhirðuna og það er mikilvægt að læra á muninn á sumri og vetri en það er vökvað minna yfir vetrartímann því þá er birtan minni. Samspilið milli lítillar birtu og hins mikla hita sem er í okkar húsum að vetrinum getur reynst plöntum dálítið erfitt,“ bendir Lára á.