Stjórn Nýs Landspítala ohf. (NLSH) hækkaði í upphafi árs laun framkvæmdastjóra félagsins um tæpar 200 þúsund krónur á mánuði. Þetta kemur fram í svari framkvæmdastjórans við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í vikunni svör stjórna allra fyrirtækja í ríkiseigu við erindi þess um hvernig brugðist hafi verið við tilmælum ráðuneytisins frá janúar 2017 um launaákvarðanir og starfskjör lykilstjórnenda. Í svari NLSH er útskýrt að laun Gunnars Svavarssonar framkvæmdastjóra hafi hækkað í ársbyrjun í samræmi við breytingar á launavísitölu en engar upphæðir nefndar.
Í svarinu er reifað hvernig laun framkvæmdastjórans höfðu ekki tekið breytingum síðan í júní 2016. Haustið 2018 hóf stjórn NLSH rýni á umfangi félagsins og störfum framkvæmdastjóra og komst að þeirri niðurstöðu að allar kennistærðir í félaginu hefðu aukist verulega enda hefðu umsvif félagsins orðið meiri með ári hverju í samræmi við fjárheimildir Alþingis með fjárlögum ár hvert.
Ljóst væri einnig að umfang Hringbrautarverkefnisins myndi halda áfram að aukast. Stjórn félagsins ákvað því að föst laun Gunnars skyldu hækka í upphafi árs úr 1.308.774 krónum á mánuði í 1.506.023 krónur. Hækkun sem nemur 15 prósentum og rúmum 197 þúsund krónum.
Af svörum annarra ríkisstofnana að dæma þá er hækkun Gunnars í samanburði hófstillt. Laun forstjóra Isavia og Íslandspósts hafa hækkað um 43 prósent síðan ráðuneytið sendi stjórnum tilmælin og forstjóra Landsnets um 37 prósent svo fátt eitt sé nefnt.
