Skoðun

Þar sem allir geta lifað með reisn

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar
Um sumt eru Íslendingar sammála. Við eru sammála um öfluga samneyslu. Við viljum gjaldfrjálsa menntun og við viljum öflugt velferðarkerfi. Til þess leggjum við á skatta. En við beitum líka skattkerfinu til að jafna kjörin. Því að staðreyndin er sú að auknar tekjur skipta fátækan mann meira máli en ríkan.

Allir eru sammála um það að um langa hríð hefur sá hópur fólks sem á erfitt með að láta heimilisbókhaldið ganga upp verið of stór. Samkvæmt lífskjararannsókn telur u.þ.b. tíundi hluti þjóðarinnar það mjög erfitt að láta enda ná saman. Það hlýtur að vera markmið samfélagsins að enginn þurfi að hafa áhyggjur af því.

Hér þarf að horfa á heildarmyndina og samspil bóta og skatta. Sitjandi ríkisstjórn hefur stýrt aukningu í barnabótakerfið til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar til að koma til móts við barnafjölskyldur með lágar tekjur. Þá hefur hækkun leiguverðs komið illa við fólk með lágar tekjur. Von er á úrbótum í húsnæðismálum, en það tekur tíma að snúa við þeirri þróun sem hófst þegar hið félagslega húsnæðiskerfi ríkisins var lagt af undir lok síðustu aldar. Þá þarf að byggja upp hágæða almenningssamgöngur á landsvísu svo það sé val að eiga bíl, en ekki nauðsyn.

Með tillögu sérfræðingahóps um skattkerfið, um að búa til lægra þrep fyrir lágar tekjur færumst við nær Norðurlöndunum. Það skilar sér í því að skattprósenta lægstu launa er komin á sama stað og hún var við upphaf staðgreiðslunnar árið 1988. Þá var mikilvægt skref í átt til réttlætis stigið fyrsta janúar síðastliðinn, en héðan í frá munu efra og neðri þrep fylgja sömu vísitölu svo að skattbyrði aukist ekki aftur hjá hinum tekjulægri en haldist óbreytt hjá þeim tekjuhærri þegar laun hækka umfram verðlag.

Að öllu þessu vinnur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Við viljum þjóðfélag þar sem allir geta lifað með reisn.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×