Skoðun

Vakúmpakkaða gúrkan

Sigríður María Egilsdóttir skrifar
Fyrir stuttu átti ég leið í matvöruverslun og í grænmetisdeildinni stóð ég frammi fyrir vali; hvort ætti ég að kaupa gúrku á „adamsklæðunum” eða gúrku í plastbúning í fánalitunum? Ég greip þessa í landsliðsbúningnum enda kýs ég yfirleitt íslenska framleiðslu. Þegar heim var komið og ég rétt búin að ná lambhagasalatinu úr boxinu og plastinu utan af paprikutvennunni þurfti ég að kljást við vakúmpökkuðu gúrkuna. Þeim samskiptum má helst líkja við handalögmál, en með lausa tönn og brotna nögl stóð ég þó að lokum uppi sem sigurvegari.

En af hverju allt þetta plast?

Í skýrslu um kolefnisspor grænmetis sem unnin var fyrir Samband Garðyrkjubænda kom m.a. fram:

Í fyrsta lagi: Framleiðendur hérlendis vilja að grænmetinu sé pakkað í umbúðir svo unnt sé að tilgreina það sem íslenska afurð.

Í öðru lagi: Kolefnisspor íslensks grænmetis er minna en innfluttra afurða, þrátt fyrir plastflíkurnar.

Ég skil vel áhyggjur grænmetisbænda. Innlend vara er oftar en ekki dýrari en sú innflutta og ef horft væri á tvær ómerktar og allsberar gúrkur hlið við hlið, myndu sennilega flestir grípa þá ódýrari. Helsta samkeppnisforskotið felst því í upprunalandinu og þjóðarstolti. Áfram Ísland!

Seinni punktur skýrslunnar afsakar þó ekki tilgangslausar umbúðir og því er mikilvægt að samtvinna sjónarmið kolefnisjöfnunar og samkeppni. Hvað með að útbúa sérstaka standa í verslunum þar sem íslensku grænmeti, í sínum náttúrulegu umbúðum, má stilla upp? Standa sem eru merktir bak og fyrir sem íslensk framleiðsla og hægt að tína til allskyns íslenskt grænmeti í merkta bréfpoka.

Neytendur vilja leggja sitt að mörkum í umhverfismálum. Hér er kjörið tækifæri fyrir íslenska grænmetisbændur að auka samkeppnisforskot sitt, og samtímis afklæða íslensku gúrkuna úr plastspandexinu sem braut á mér nöglina.

Höfundur er varaþingmaður Viðreisnar.



PS. Hættið að setja tómata í ísskápinn. Þeir eiga heima við stofuhita í skjóli frá sólinni.








Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×