Næstráðandi Hashim hefur verið handtekinn. Maithripala Sirisena, forseti Srí Lanka, sagði í morgun að talið væri að um 130 manns sem tengist Íslamska ríkinu haldi til á eyjunni og enn eigi eftir að handtaka 70 af þeim.
Zahran Hashim var öfgafullur en lítt þekktur klerkur sem var meðlimur í hópi sem skemmdi búddastyttur í Srí Lanka fyrir nokkrum árum. Síðan þá hafði hann birt fjölda af myndböndum á Youtube þar sem hann kallaði eftir árásum gegn öllum þeim sem ekki væru íslamstrúar.

Samkvæmt AP fréttaveitunni segir lögreglan að árásarmennirnir hafi fengið einhverja þjálfun og hún hafi bæði farið fram erlendis og í Srí Lanka.
Indverjar höfðu varað öryggisstofnanir Srí Lanka við því að NTJ hyggðu á árásir en ekki var gripið til aðgerða vegna þeirrar viðvörunar og upplýsingunum mun ekki hafa verið deilt með öðrum meðlimum ríkisstjórnar landsins en varnarmálaráðherranum, sem sagði af sér í gær. Yfirmaður lögreglunnar mun einnig hætta á næstunni.
Sirisena kenndi þeim báðum um að hafa ekki deilt upplýsingunum með öðrum.
Tala látinna var lækkuð af yfirvöldum Srí Lanka úr 359 í „um það bil“ 253. Sú breyting hefur ekki verið útskýrð nánar.