Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir tók í dag sæti á Alþingi í fyrsta sinn. Nanna Margrét tekur sæti sem þriðji varamaður Miðflokksins í suðvesturkjördæmi og fyllir í skarð Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns, sem er erlendis á vegum Alþingis.
Nanna Margrét tilheyrir svo sannarlega Miðflokksfjölskyldunni en hún er systir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins. Hún undirritaði drengskaparheit að stjórnarskránni og bauð forseti Alþingis hana velkomna til starfa við upphaf þingfundar í dag.
Nanna Margrét starfar sem fjárfestingastjóri Hafbliks fjárfestingafélags. Hún var í fjórða sæti á framboðslista Miðflokksins í suðvesturkjördæmi í fyrra. Gunnar Bragi er eini þingmaður flokksins úr kjördæminu og hún því þriðji varaþingmaður. Varaþingmennirnir fyrir ofan hana gátu ekki sinnt þingstörfum.
Fjölmörg systkini hafa setið saman á Alþingi. Má nefna Björn Bjarnason og Valgerði Bjarnadóttur, Ingibjörgu Pálmadóttur og Ísólf Gylfa Pálmason auk Katrínar og Halldórs Ásgrímsbarna.
Systir Sigmundar Davíðs fyllir í skarð Gunnars Braga
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
