Skoðun

Furðuveröld sendiherrans

Stefán Pálsson skrifar

Sendiherra Marokkó á Íslandi var í viðtali í Fréttablaðinu sem birtist þann 20. apríl síðastliðinn. Tilefnið var óánægja Marokkóstjórnar með að forsætisráðherra Íslands og raunar einnig fyrsti varaforseti Alþingis hefðu fundað með Brahim Ghali, leiðtoga Polisario-hreyfingarinnar. Gahli er jafnframt forseti Sahrawi lýðveldisins, sem gerir tilkall til yfirráða í Vestur-Sahara sem hefur að mestu verið hernumið af Marokkó í fjóra áratugi.



Fundir þessir eru í fullu samræmi við nokkurra ára gamla samþykkt Alþingis um að íslensk stjórnvöld skuli vinna að friðsamlegri lausn deilunnar um Vestur-Sahara og að sjálfsákvörðunarréttur íbúanna skuli virtur. Engu að síður telur sendiherrann sæmandi að halda því fram að forsætisráðherra hafi látið blekkja sig með því að fallast á fundinn.



Viðtalið við sendiherrann er raunar allt með miklum ólík­indablæ. Þannig skautar hún fram hjá þeirri staðreynd að engar alþjóðastofnanir viðurkenna hernám Marokkóstjórnar. Sameinuðu þjóðirnar hafa margoft lýst því yfir að ákvarða skuli framtíðarstöðu landsins með þjóðaratkvæðagreiðslu, en andstaða Marokkó­manna hefur komið í veg fyrir að af því geti orðið. Vanvirðing Marokkó í garð alþjóðasamfélagsins var svo fullkomnuð fyrir fáeinum misserum þegar stjórnin í Rabat neitaði sjálfum aðalritara Sameinuðu þjóðanna að ferðast til Vestur-Sahara!



Fráleitasta fullyrðing viðtalsins var þó á þessa leið: „Það býr næstum milljón á þessu svæði. Einungis örfá hundruð þeirra deila sjónarmiðum þessa manns. Þessi minnihluti þarf að vekja athygli á sér með því að ögra.“ Veruleikafirring þessara orða er slík að helst minnir á fréttatilkynningar frá einræðisríkjum þar sem valdhafar eru sagðir hafa fengið 99,9% atkvæða í kosningum.



Eru Sameinuðu þjóðirnar búnar að vera með fjölmennt friðargæslulið í Vestur-Sahara um áratugaskeið út af nokkur hundruð óeirðaseggjum? Er Marokkóstjórn með tugþúsundir hermanna í landinu til að halda niðri nokkur hundruð manns sem reyna að vekja athygli á sér? Er það ástæðan fyrir að lengsti aðskilnaðarmúr á Jörðinni klýfur landið í tvennt og er umlukinn einhverju stærsta jarðsprengjubelti í heimi? Nokkur hundruð manns nær reyndar vel yfir þann fjölda sem Marokkóstjórn hefur látið hverfa á liðnum árum eða dæmt til grimmilegra refsinga, allt að ævilöngu fangelsi, fyrir að taka þátt í friðsömum mótmælagöngum eða setuverkföllum. Fjöldi mannréttindasamtaka hefur fordæmt framgöngu Marokkómanna í landinu.



Nú er það skiljanlegt að diplómatar líti á það sem hlutverk sitt að halda málstað vinnuveitenda sinna á lofti, en er ekki lágmarkskrafa að þeir reyni í það minnsta að ljúga líklega? Málflutningur af þessu tagi er þó ekki óvæntur úr ranni Marokkó­stjórnar. Sannleikurinn er fyrsta fórnarlambið í viðleitni hennar til að réttlæta ólögmætt hernám. Og þegar lygunum sleppir er næsta skrefið að rífast, skammast og hreyta ónotum í þá ráðamenn sem ekki láta kúga sig til hlýðni.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×