Þetta er á meðal niðurstaðan umfangsmikillar könnunar sem gerð var fyrir breska ríkisútvarpið BBC síðla árs í fyrra og fram á vor á þessu ári. Hún var gerð í Alsír, Egyptalandi, Írak, Jórdaníu, Líbanon, Líbíu, Marokkó, Palestínu, Súdan, Túnis og Jemen.
Hæsta hlutfall þeirra sem segjast ekki vera trúaðir er í Túnis þar sem um það bil þriðjungur lýsti sér þannig. Í Líbíu sagðist meira en einn af hverjum fimm ótrúaður. Af fólki undir þrítugu sögðust 18% ekki trúrækin.
Jemen var eina landið þar sem þeim fækkaði sem sagðist ekki aðhyllast trúarbrögð frá því að síðasta könnun var gerð árið 2013. Þá urðu litlar breytingar á fjölda trúlausra í Líbanon, Palestínu og Írak.
Fleiri telja heiðursmorð ásættanleg en samkynhneigð
Þegar spurt var um réttindi kvenna sagðist meirihluti svarenda í löndunum hlynntur því að kona yrði forsætisráðherra eða forseti. Aðeins í Alsír var meirihluti mótfallinn því að kona gæti verið æðsti stjórnmálaleiðtogi landsins.Afstaða íbúa landanna til kvenna á heimilinu var íhaldssamari. Þannig taldi meirihluti að karlmaðurinn ætti alltaf að hafa lokaorðið um ákvarðanir sem vörðuðu fjölskylduna, einnig á meðal kvenna. Marokkó var eina landið þar sem meirihluti var ekki fyrir þeirri skoðun.
Fordómar gegn samkynhneigðum er útbreidd í löndunum. Þannig töldu víða fleiri að svonefnd „heiðursmorð“ væru ásættanleg en samkynhneigð. Morð á ættingja, yfirleitt konu, fyrir að sverta heiður fjölskyldunnar hafa verið nefnd heiðursmorð.
Mest umburðarlyndi fyrir samkynhneigð reyndist í Alsír þar sem rétt rúmur fjórðungur taldi hana ásættanlega. Það var þó prósentustigi færri en töldu heiðursmorð ásættanleg. Í Líbanon og í Palestínu töldu aðeins 5-6% svarenda að samkynhneigð væri ásættanleg.