Hamilton tryggði sér sinn sjötta sigur í átta keppnum um helgina er liðsfélagi hans, Valtteri Bottas, varð annar.
Bottas þurfti á sigri að halda í Frakklandi til að minnka muninn í mótinu þar sem Finninn virðist vera sá eini sem getur keppt við Hamilton um titilinn.
Mercedes liðið hefur unnið allar keppnir ársins og er nú með 140 stiga forskot á Ferrari. Þó Mercedes bílarnir myndu báðir detta út úr næstu þremur keppnum og Ferrari endaði í fyrsta og öðru myndi ítalska liðið samt ekki komast upp fyrir Mercedes.
Viðburðalítill kappakstur

Búist var við hörkuslag milli Mercedes ökumannanna sem ræstu á fremstu röð. Valtteri Bottas virtist þó ekki eiga nein svör við ógnarhraða Hamilton. Að lokum endaði Finninn 18 sekúndum á eftir liðsfélaga sínum.
Charles Leclerc ræsti þriðji og endaði þriðji aðra keppnina í röð. Mónakóbúinn gerði atlögu að Bottas á síðasta hring en komst ekki framúr.
Liðsfélagi Leclerc, Sebastian Vettel, hefur verið að keppa við Hamilton um heimsmeistaratitilinn síðustu ár. Ekkert hefur gengið upp hjá Þjóðverjanum í ár og endaði hann fimmti um helgina.
Stutt er í næstu keppni sem fer fram í Austurríki um næstu helgi. Þar er Red Bull á heimavelli og freistar liðið þess að gera betur en fjórða sætið sem Max Verstappen náði um helgina.