Sænskir saksóknarar hafa farið fram á að gæsluvarðhald yfir bandaríska rapparanum A$AP Rocky verði framlengt, en hann hefur verið í haldi í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, vegna gruns um líkamsárás síðan 3. júlí.
Rapparinn er sakaður um að hafa ráðist á mann þann 30. júní síðastliðinn ásamt tveimur öðrum mönnum. Þeir eru einnig í haldi vegna gruns um líkamsárás og hefur lögregla einnig krafist framlengingar á gæsluvarðhaldi yfir þeim.
Tvær vikur eru síðan saksóknarar fóru upphaflega fram á framlengt gæsluvarðhald yfir rapparanum, en nú vilja þeir halda honum til 25. júlí, en þá segja saksóknarar að unnt verði að ákæra rapparann. Úrskurðað verður um gæsluvarðhaldskröfuna í dag.
„Við höfum unnið ákaft að rannsókn málsins og þurfum meiri tíma, fram að næsta fimmtudegi, til þess að leggja lokahönd á bráðabirgðarannsókn málsins,“ hefur Mixmag eftir Daniel Suneson saksóknara.
Rocky var staddur í Stokkhólmi vegna tónleikahátiðar sem hann spilaði á, en hin meinta líkamsárás er sögð hafa átt sér stað eftir tónleika hans.
