Maðurinn, sem er 82 ára, var dæmdur í 7 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni í fyrra sumar. Lögmaður hans sótti þá um náðun fyrir hann á grundvelli heilsufars en því var hafnað á þeim grundvelli að ekki væru komin fram nægilega sterk rök fyrir því að fella refsingu niður. Eftir það hóf maðurinn afplánun í fangelsinu á Akureyri og er þar nú. Í síðasta mánuði var aftur sótt um náðun og fylgdu með ný læknisvottorð, meðal annars frá þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda.
Í náðunarbeiðninni segir að að heilsufar mannsins sé mjög ábótavant. Hann sé meðal annars með kransæðasjúkdóm, háþrýsting, hjartalokusjúkdóm, sykursýki og með slæm útbrot sem hann taki stera við. Þá sé hann með bakverki, kæfisvefn og kvíða. Auk þess sé hann blindur á báðum augum.

Undir þetta tekur Guðmundur Ingi Þóroddson, formaður Afstöðu, félags fanga. „Það áttar sig engin á því hvers vegna hann er í fangelsi. Auðvitað hefur hann framið einhvern glæp en það breytir því ekki að maður í svona ástandi á ekki að vera vistaður í fangelsi heldur í viðeigandi stofnun,“ segir Guðmundur Ingi.
Í fangelsinu á Akureyri sinni samfangar og fangaverði honum sem séu ekki með reynslu af umönnunarstörfum.
„Mikið veikir einstaklingar, geðfatlaðir eða þroskaskertir eða eldri borgarar eiga að vera vistaðir á viðeigandi stofnun þar sem er hjúkrunarfólk, það er ekki boðlegt að þeir séu í lokuðu öryggisfangelsi,“ segir Guðmundur Ingi.