Ljóst var að lítið var hægt að gera fyrir hvalinn fyrr en það myndi flæða aftur að um kvöldið og ákváðu íbúar í Vogum því að halda hvalnum rökum með blautum teppum yfir daginn.
Þegar byrjaði að flæða að í gærkvöldi fóru björgunarsveitarmenn í flotgalla og aðstoðuðu hvalinn aftur til hafs. Ægir Gunnarsson birti myndband af björguninni á Facebook-síðu sinni en hann sagði hvalinn hafa verið í töluverðan tíma að ná áttum og styrk til að synda í burtu eftir tæplega sólarhrings strand í grófri hraunfjörunni.