„Í dag getur hver einasti Indverji stoltur sagt að í Indlandi sé ein þjóð, ein stjórnarskrá,“ sagði Modi og bætti við:
„Hið gamla fyrirkomulag í Jammu, Kasmír og Ladakh stuðlaði að spillingu, frændhygli og óréttlæti í garð kvenna, barna, dalíta og ættbálkasamfélaga.“
Þá ræddi Modi einnig um hryðjuverk á svæðinu og sagði Indland áfram ætla að berjast af hörku gegn hverjum þeim sem breiddi út hryðjuverkastarfsemi. Vert er að minnast þess að fyrr á árinu voru hryðjuverkasamtökin JeM sögð hafa gert árás á Pulwama í indverska hluta Kasmír. Indverjar sögðu Pakistana hafa brugðist með því að uppræta ekki starfsemi JeM í pakistanska hluta Kasmír og spennan á milli kjarnorkuveldanna tveggja jókst gríðarlega. Indverjar sögðust hafa gert loftárás á bækistöðvar JeM og hermenn ríkjanna tveggja skutu hverjir að öðrum. Ekki kom þó til stríðs, hvað þá kjarnorkustríðs.

Imran Khan, forsætisráðherra Pakistans, lét einnig í sér heyra í gær. Hann gagnrýndi harðlega útgöngubannið sem hefur verið í gildi í nær tvær vikur í indverska Kasmír. „Í tólf daga hefur verið útgöngubann í hinum hernumda indverska hluta Kasmír. Fjöldi hermanna til viðbótar við þá miklu viðveru sem var þar þegar, algjört samskiptabann og fordæmi um þjóðernishreinsanir Modi á múslimum í Gujarat,“ tísti Khan.
„Mun heimsbyggðin horfa þegjandi á annað Srebrenica-þjóðarmorð og þjóðernishreinsanir á múslimum í indverska Kasmír? Ég vil vara alþjóðasamfélagið við þessu. Þetta myndi hafa alvarlegar afleiðingar í múslimaheiminum og leiða af sér róttæknivæðingu og ofbeldi.“
Hvað er málið með Kasmír?
Það er löng saga. Pakistanar og Indverjar gera hvorir tveggja tilkall til svæðisins alls. Héraðið þykir mikilvægt vegna orku og menningar og er það einnig hernaðarlega mikilvægt sökum staðsetningar. En samkvæmt greiningu The Diplomat er mikilvægi Kasmír helst fólgið í því að úr jöklum svæðisins rennur ferskt vatn, lífsnauðsynlegt fyrir íbúa á þurrum svæðum í Pakistan og á Indlandi.
Hvað gerðist í Kasmír?
Tugir þúsunda indverskra hermanna voru fluttir til indverska hluta Kasmír í upphafi mánaðar. Skólum var lokað, ferðamönnum gert að yfirgefa svæðið og skorið var á bæði síma- og netsamband, samkvæmt samantekt breska ríkisútvarpsins.Í kjölfarið tilkynnti indverska ríkisstjórnin að indverski hluti Kasmír, ríkið sem nefnist Jammu og Kasmír, yrði svipt sjálfstjórn og íbúar þeim sérstöku réttindum sem þeir höfðu fengið. Þannig var sérstök stjórnarskrá svæðisins felld úr gildi og löggjafarvaldið tekið til baka. Þessi umdeilda aðgerð hefur lengi verið á borðinu hjá Narendra Modi og BJP-flokki hans.
Var til að mynda á stefnuskrá flokksins fyrir kosningarnar fyrr á árinu. Að mati BJP-liða er hún nauðsynleg til þess að sameina Indverja. Gagnrýnendur hafa hins vegar haldið því fram að Modi geri þetta núna til þess að beina athyglinni frá efnahagsörðugleikum og að til lengri tíma litið sé aðgerðin hugsuð til þess að breyta því að múslimar séu í meirihluta í Jammu og Kasmír. BJP aðhyllist hindúa-þjóðernishyggju og með aðgerðinni er afnuminn sá réttur yfirvalda í Jammu og Kasmír að banna aðkomumönnum að kaupa land.