Sigurliðið mætir FH í úrslitaleiknum en Fimleikafélagið hafði betur gegn KR í gærkvöldi. Gunnleifur mun verja mark Blika í kvöld en hann hefur gengið í gegnum margt í bikarnum.
„Í fyrsta úrslitaleiknum var ég Kristjáni Finnbogasyni til halds traust er við KR-ingar unnum tvöfalt. Það var bara skemmtilegt, þó ég hafi verið á bekknum,“ sagði Gunnleifur en það var fyrir tuttugu árum.
Síðar stóð Gunnleifur í markinu hjá FH er hann varði mark FH í 4-0 sigri á KR 2010 þar sem allt var á suðurpunkti.
„Þá pökkuðum við KR saman í frægum úrslitaleik þar sem við fengum tvö víti. KR-ingar voru brjálaðir og það var mjög sætt.“
Á síðustu leiktíð tapaði Breiðablik svo í vítaspyrnukeppni í úrslitaleiknum er liðið beið í lægra haldi fyrir Stjörnunni.
„Það var ansi þungt verð ég að viðurkenna. Við töpuðum í vítaspyrnukeppni við erfiðar aðstæður; kalt, rok og langur leikur. Það sat svolítið í mér.“
Víkingur vann sinn fyrsta og eina sigur í bikarkeppninni árið 1971 og þá var Kári Árnason, landsliðsmaður og leikmaður Víkinga, ekki fæddur.
„Það eru ellefu ár í að ég fæðist þá. Það er alltof langt og það er kominn tími á þetta,“ sagði Kári en Víkingur vann sigur á Blikum á dögunum. Spilamennskan var þó ekki upp á marga fiska, að mati Víkinga:
„Það var sennilega okkar versti leikur síðan að ég kom. Það var heppni í því en við tókum stigin þrjú. Við áttum okkur á því og erum mjög krítískir á sjálfa okkur.“
„Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta þarf að vera betra til þess að ná sigri hérna í bikarnum,“ sagði Kári að lokum.
Innslagið í heild sinni má sjá hér að neðan.