Ferðaþjónustufyrirtækið sem hyggst byggja á svæðinu heitir Eternal Resort og rekur t.d. Iceland Igloo Village og er í eigu malasískra fjárfesta.

„Áhyggjur sumarhúsaeigenda þarna uppfrá eru svo sem skiljanlegar breytingar geta vakið ugg hjá mörgum. Það er ekkert óeðlilegt við það. Málið er í eðlilegum fasa hjá skipulagsyfirvöldum hér í Rangárþingi ytra. Það komu athugasemdir frá á síðasta fundi nefndarinnar og þá var deiliskipulagið auglýst aftur ef ég man rétt,“ segir Haraldur.
Ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Igloo Village rekur 15 hjóhýsi á jörðinni Leyni og í fréttum í gær kom fram að þau væru tengd við fráveitu en hafi ekki leyfi til þess. Haraldur segir að gerðar hafi verið athugasemdir vegna þess.


„Við ætlum að taka það fyrir á fundi skipulags-og umferðarnefndar á morgun. Þessi aðili virðist vera að fara eitthvað framúrsér,“ segir Haraldur.
Á morgun verður fundur í skipulags og umferðarnefnd og verður málið þá tekið fyrir. Fundargerð frá fundinum á morgun birtist hins vegar á heimasíðu Rangárþings ytra fyrir helgi samkvæmt gögnum sem fréttastofa hefur undir höndum og er rituð af byggingafulltrúa.
Þar kemur fram að skipulagsnefnd telji rétt að veitt verði stöðuleyfi fyrir kúluhús til eins árs. Haraldur hafði ekki vitnesku um að fundargerðin hefði birst og hefur hún verið fjarlægð af heimasíðunni.