Jamal Khashoggi, sádiarabískur blaðamaður, var myrtur og lík hans bútað niður á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í október í fyrra. Bandaríska leyniþjónustan telur að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi skipað fyrir um morðið en Khashoggi var í útlegð og hafði verið gagnrýninn á stjórnvöld í heimalandi sínu.
Í viðtali við vefmiðilinn Axios afsakaði Khosrowshahi morðið á Khashoggi sem mistök en Sádar eru einir stærstu hluthafar Uber. Líkti hann morðinu fyrir banaslys sem sjálfkeyrandi bíll Uber átti þátt í.
„Þetta eru alvarleg mistök. Við höfum líka gert mistök með sjálfkeyrandi og við höfum hætt akstri og við erum að ná okkur af þeim mistökum. Ég held að fólk geri mistök, það þýðir ekki að það sé ekki hægt að fyrirgefa því nokkurn tímann. Ég held að þeir hafi tekið því alvarlega,“ sagði Khosrowshahi við fréttamann Axios.
Eftir að myndband af viðtalinu birtist hófu samfélagsmiðlanotendur herferð þar sem þeir hvöttu til þess að Uber yrði sniðgengið, að sögn Washington Post. Khosrowshahi reyndi síðar að leiðrétta það sem hann sagði í viðtalinu.
„Ég sagði eitthvað sem ég trúi ekki. Þegar kemur að Jamal Khashoggi, var morðið á honum skammarlegt og það ætti hvorki að gleymast né afsaka,“ sagði forstjórinn í tölvupósti sem hann sendi Axios.