Anna Margrét Guðjónsdóttir ólst upp hjá mjög veikri móður ásamt systrum sínum. Það kemur henni á óvart hve lítið hefur breyst í samfélaginu frá því hún var ung stúlka sjálf.
„Ennþá finnst mér fólk verða skrýtið þegar ég segist hafa alist upp við geðveiki. Það er enn þessi veggur. Það myndi enginn verða skrýtinn ef ég segði að foreldri mitt hefði látist úr sjúkdómi þegar ég var 13 ára.“
Sjá einnig: Lokuð á heimilinu með geðveikri móður
Anna Margrét segir ekki öll mál sem tengast geðsjúkum foreldrum vera barnaverndarmál eins og í tilfelli Margrétar Lillýjar. En hvort sem er, þá þurfi öll þessi börn hjálp frá samfélaginu.
Hún segir stofnanir samfélagsins þurfa að tala betur saman og leggur til einfaldar lausnir. Til dæmis að þegar foreldri er lagt inn á geðdeild sé heilsugæsla og skólayfirvöld látin vita af aðstæðum barnsins og velferð þess sé tryggt. Börn geðveikra ræði ekki stöðu sína, hvorki við vini né fagfólk. Margir í lífi barnsins láti sig hverfa.
„Fjölskylda, vinir og fleiri. Smám saman verða fjölskyldur geðveikra einangraðar. Gestakomur leggjast af,“ segir Anna Margrét.
Hún segist ekki hafa sagt neinum frá aðstæðum heima fyrir, vinkonur hennar hafi ekki einu sinni vitað af þeim. Þess þá heldur hafi verið mikilvægt að eitthvað kerfi gripi inn í og veitti stuðning.
„Fólk kýs að líta undan“
Önnu Margréti svíður að börn geðveikra fái ekki sama stuðning og börn foreldra með aðra sjúkdóma, líkt og til dæmis Ljósið sem aðstoðar börn sem eiga krabbameinssjúka foreldra og er á fjárlögum.
Anna Margrét segir sárt að sjá í tilfelli Margrétar Lillýjar að hún hafi beðið um hjálp en ekki fengið hana.
„Það var vandinn þá og mér sýnist það vera enn í dag, að fólk kýs að líta undan. Ég held að fagfólk á Íslandi hafi mikla fordóma gagnvart geðveiki. Það er ákveðið áhyggjuefni og það þurfum við líka að ræða.“