Gullæði á Grænlandi. Þannig hljómar fyrirsögn eins grænlensku fjölmiðlanna eftir að fréttir bárust um stóran gullfund fyrirtækis, sem Íslendingar standa að. Landssjóður Grænlands er einnig í hópi stærstu eigenda. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Gullæði í suðri. Hundrað ný störf á leiðinni, segir blaðið Sermitsiaq, um kanadíska félagið AEX Gold með Íslendinginn Eld Ólafsson í fararbroddi sem er að endurvekja gullvinnslu á Suður-Grænlandi.

Grænlendingar eru þátttakendur í gegnum opinbera sjóði.
„Sem eru Danish Growth Fund og Greenland Venture Fund, sem eru ríkisreknir sjóðir í Danmörku og Grænlandi,“ segir Eldur, en samtals eiga sjóðirnir um tíu prósent í félaginu.
Stærsti hluthafinn er bandarískur sjóður, með um tuttugu prósent, en Eldur áætlar að liðlega þrjátíu prósent hlutafjár séu í höndum Íslendinga.

Lykilatriði segir hann að gullvinnslan verði með lágmarks umhverfisáhrifum.
„Gull er ekki bara notað í skartgripi og fyrir seðlabanka heldur er gull meira og meira notað í tæknigeiranum í heiminum; tölvur, allskonar rannsóknir og tækjabúnað, sem er notaður í geimnum og slíkt.
Þannig að það er mikilvægt að geta búið til eins hreint og gott efni og mögulega getur orðið. Grænland er alveg fullkominn staður fyrir það.“

Gullleitamenn hafa notast við klifurbúnað í fjallshlíðum en myndirnar frá Grænlandi sýna líka vegi sem fyrra námufélag hafði lagt áður en það fór í þrot.

„Það er búið að byggja upp fyrir í kringum 200 milljónir dollara; vegi, hafnir, alla innviði, námuna, vinnsluplanið sjálft. Þetta er oft stærsti áhættuþátturinn í uppbyggingu á svona verkefnum,“ segir Eldur.

Stjórnarformaður AEX Gold er Graham Stewart. Hann er Skoti af færeyskum ættum og tók við fyrsta sérleyfinu á Drekasvæðinu árið 2013 sem þáverandi forstjóri Faroe Petroleum, eins olíufélaganna. Það var í gegnum olíuleitina sem þeir Eldur kynntust.
Sjá hér: Olíuvinnsluleyfi afhent
Í frétt Stöðvar 2 í fyrradag kom fram að gullæðar, sem þegar hafa fundist, séu taldar um fimmtíu milljarða króna virði.
Sjá hér: Gullfundur Íslendinga á Grænlandi talinn fimmtíu milljarða króna virði

-Þýðir það ekki að þú ert að verða ríkur?
„Nei, það þýðir það ekki í dag. Verðmæti félagsins í dag er í kringum þrír milljarðar, heildarverðmæti félagsins. Og það eru auðvitað ennþá áhættur í verkefninu. Og við tökumst á við þær bara skref fyrir skref. Þetta er langtímaverkefni,“ svarar Eldur.

Þar skipti máli að fundist hafi gullæðar á fleiri svæðum.
„Það eyðist það sem af er tekið. Og við þurfum að finna meira og byggja upp auðlindina á þann hátt að við séum ekki bara þarna í einhver 2-3 ár heldur vonandi til lengri tíma og getum þar af leiðandi tekið þátt í að byggja upp samfélagið þarna og umhverfið á þann hátt að hafa langtímasýn í huga,“ segir Eldur.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: