Foreldrar barns sem er um eins árs gamalt voru handteknir á jóladag eftir að kókaín fannst í blóði barnsins, samkvæmt heimildum fréttastofu. Barnið hafði verið flutt í alvarlegu ástandi á spítala.
Faðir barnsins var handtekinn í aðgerðum lögreglu í heimahúsi í Norðlingaholti en lögregla var kölluð á vettvang til að aðstoða barnaverndaryfirvöld.
Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur móðurinni verið sleppt en faðirinn var fluttur í fangelsi þar sem hann var á reynslulausn vegna eldri dóms fyrir ofbeldisbrot. Um fjögur ár voru eftir af dómnum.
Rannsókn á málinu er í höndum lögreglu og beinist hún meðal annars að mögulegu fíkniefnamisferli auk þess sem fólkið er grunað um að hafa stofnað velferð barnsins í hættu. Málið er einnig til skoðunar hjá barnaverndaryfirvöldum.