Útlit er fyrir að loftið yfir landinu eftir hádegi verði óstöðugt þar sem myndast geta háreist skúraský. Mögulega verður vart við eldingar eða hagl á stöku stað á Vestur- og Norðurlandi.
Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Áfram verði svo óstöðugt loft á morgun með dembum víðar um land og mögulega hagl og eldingar á stöku stað.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að í dag megi búast við fremur hægri suðlægri átt og stöku skúrum, en dálítil rigningu norðaustantil fram eftir morgni.
„Eftir hádegi gengur í suðaustan 8-13 m/s, þykknar upp og fer að rigna um sunnanvert landið. Heldur hægari vindur vestan- og norðanlands og skúrir, sumar þeirra hellidembur og má jafnvel búast við hagléli og eldingum á stöku stað. Hiti víða 10 til 16 stig að deginum.
Talsverð rigning á Suðausturlandi í kvöld og nótt, en annarsstaðar dregur úr úrkomu.“
Veðurhorfur næstu daga
Á miðvikudag: Breytileg átt 3-8 m/s, en suðaustan 8-13 á austanverðu landinu. Talsverð rigning suðaustanlands, en skúrir í öðrum landshlutum, sums staðar hellidembur. Úrkomulítið um kvöldið. Hiti 10 til 17 stig.
Á fimmtudag: Suðvestlæg eða breytileg átt 3-10 og dálitlar skúrir, en bjartviðri austantil. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Austurlandi.
Á föstudag: Austlæg átt, víða 5-10 m/s. Dálítil rigning um landið norðaustanvert, en stöku súrir í öðrum lands hlutum. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast suðvestanlands.
Á laugardag og sunnudag: Allhvöss eða hvöss austan- og norðaustanátt. Rigning og hiti 8 til 13 stig, en úrkomulítið um landið suðvestanvert og hiti að 18 stigum.
Á mánudag: Norðaustan átt og rigning með köflum, en þurrt sunnan- og vestanlands. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast á Suðurlandi.