Nýtt hringtorg sem byrjað er að gera í Vík í Mýrdal er um leið fyrsti áfanginn að tengingu við fyrirhuguð jarðgöng í gegnum Reynisfjall. Alþingi samþykkti á dögunum ný lög sem heimila ríkissjóði að semja við einkaaðila um jarðgöngin. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Verktakafyrirtækið Framrás, sem er í eigu heimamanna, vinnur þessa dagana að gerð nýs hringtorgs í Vík en jafnframt að endurbótum þjóðvegarins í gegnum þorpið.
„Þetta er stærðar verk. Það er malbikað hérna í gegnum þorpið,“ segir Jóhann Guðlaugsson, ýtustjóri og annar eigenda Framrásar ehf.

Framrásarmenn tóku að sér verkið fyrir 209 milljónir króna en þeir áttu lægsta boð, 85 prósent af kostnaðaráætlun, og eiga að ljúka því fyrir 1. október í haust.
Fyrir marga í Vík er gerð hringtorgsins táknrænt upphaf að miklu stærri en umdeildari framkvæmd. Verktakinn Jóhann velkist raunar ekki í vafa.
„Þetta er byrjunin á jarðgöngunum, - eða veginum að jarðgöngunum,“ segir hann.

Aðalskipulag Mýrdalshrepps sýnir einmitt hvernig hringtorginu er ætlað að vera tenging nýs kafla hringvegarins sem liggja á sunnan við þorpið og í gegnum Reynisfjall.
Alþingi markaði raunar stefnuna í lok júnímánaðar með samþykkt samgönguáætlunar og nýrra laga um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir. Þar eru hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli meðal sex verkefna sem ríkissjóði er núna heimilað að fjármagna með gjaldtöku af umferðinni og vinna í samstarfi við einkaaðila.

Engar fastmótaðar tímasetningar eru þó um verkið, umhverfismat er eftir og málið eldheitt deilumál meðal Mýrdælinga.
En jafnvel þótt göngin kæmu aldrei þá myndi nýja hringtorgið samt sem áður gagnast samfélaginu í Vík.
„Já, já. Bara bætt aðkoma að þorpinu,“ segir Jóhann Guðlaugsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: