LeBron James – stórstjarna Los Angeles Lakers og NBA-deildarinnar í körfubolta - segir að leikmenn deildarinnar verði að halda áfram baráttunni fyrir samfélagslegum breytingum í Bandaríkjunum.

LeBron James – stórstjarna Los Angels Lakers og NBA-deildarinar í körfubolta – reyndist hetja Lakers er liðið vann erkifjendur sína í LA Clippers í nótt. Var NBA-deildin að fara aftur af stað eftir langt hlé og hinn 35 ára gamli LeBron steig upp á ögurstundu. Tryggði hann Lakers 103-101 sigur með körfu undir lokin áður en hann spilaði góða vörn sem endaði með slöku skoti Paul George.
LeBron ræddi þó önnur málefni en aðeins þau sem tengd eru körfubolta að leik loknum.
„Í fortíðinni höfum við séð framfarir og í kjölfarið tekið fótinn af bensíngjöfinni, við getum ekki gert það nú. Við viljum halda fætinum á bensíngjöfinni. Körfubolti hefur alltaf verið stærri en þeir tíu leikmenn sem eru að spila hverju sinni. Nú er tækifæri til að dreifa ást og jákvæðni út um heim allan,“ sagði LeBron eftir leik.
LeBron endaði með 16 stig, 11 fráköst og sjö stoðsendingar. Hin stórstjarna Lakers - Anthony Davis - var stigahæstur allra á vellinum en hann setti niður 34 stig.