Birgir Gunnarsson verður nýr bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Meirihluti bæjarstjórnar hefur tekið ákvörðun þess efnis og mun Birgir hefja störf þann 1. mars næstkomandi. Hann gegndi síðast starfi forstjóra Reykjalundar en var óvænt sagt upp síðastliðið haust eftir 12 ára starf hjá stofnuninni.
Á vefsíðu Ísafjarðarbæjar er greint frá ráðningu Birgis og ferill hans rakinn. Hann er fæddur árið 1963, uppalinn á Siglufirði þaðan sem hann lauk grunnskólanámi. Hann er stúdent frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst. Því til viðbótar lauk hann námi í rekstri og stjórnun frá Háskólanum í Gautaborg.
Á árabilinu 1991 til 2007 var Birgir forstjóri á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Þaðan hélt hann til Reykjalundar þar sem hann gegndi stöðu forstjóra allt fram í október í fyrra. Þá var honum sagt upp nokkuð fyrirvaralaust, en segja má að uppsögn hans hafi verið ein af fyrstu stigum ólgunnar sem þjakaði Reykjalund undir lok síðasta árs.
Sjá einnig: Ánægja með störf Birgis en augljóslega kom eitthvað upp á
Stjórn SÍBS, sem rekur Reykjalund, hafnaði því að nokkuð „saknæmt“ hefði átt sér stað við uppsögn hans og sagði formaður sambandsins að stjórnin hafi einfaldlega talið nauðsynlegt að segja Birgi upp, rétt eins og framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi.
Það hefur þó einnig staðið styr um stöðu bæjarstjóra á Ísafirði. Guðmundur Gunnarsson, fráfarandi bæjarstjóri, tók sjálfur pokann sinn nokkuð óvænt núna í upphafi árs eftir rétt rúmlega tveggja ára starf. Starfslokin komu mörgum á óvart, ekki síst vegna eftirtektarverðar framgöngu bæjarstjórans í fjölmiðlum eftir snjóflóðin sem féllu á Flateyri og í Súgandafjörð um miðjan janúar.
Engar skýringar hafa fengist á uppsögn Guðmundar en opinbera ástæðan var sögð vera „ólík sýn“ á verkefni á vettvangi sveitarfélagsins.