Samúel Kári Friðjónsson lék í kvöld sinn fyrsta leik fyrir Paderborn í þýsku 1. deildinni í fótbolta þegar hann kom inn á í leik gegn 29-földum Þýskalandsmeisturum Bayern München.
Bayern vann leikinn 3-2 en það var pólska markavélin Robert Lewandowski sem skoraði sigurmarkið skömmu fyrir leikslok. Lewandowski skoraði tvö marka Bayern og Serge Gnabry eitt en Paderborn jafnaði metin tvívegis í leiknum, með mörkum Dennis Srbeny og Sven Michel. Lewandowski hefur nú skorað 25 mörk í þýsku deildinni í vetur, í 23 leikjum.
Samúel kom inn á þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Hann hafði áður setið á varamannabekk Paderborn í fyrstu fjórum leikjunum eftir komuna frá Viking í Noregi í janúar.

Bilið gæti ekki verið meira á milli Bayern og Paderborn þrátt fyrir að minnstu munaði að liðin skildu jöfn í kvöld. Bayern er á toppnum með 49 stig, fjórum stigum á undan RB Leipzig sem á leik til góða. Paderborn er á botninum með 16 stig, stigi á eftir Fortuna Dusseldorf og Werder Bremen en sex stigum frá næsta örugga sæti.