Formenn þeirra 55 knattspyrnusambanda sem aðild eiga að UEFA, knattspyrnusambandi Evrópu, munu á morgun taka þátt í sérstökum vídjófundi vegna kórónuveirunnar og áhrifa hennar á mótahald.
Razvan Burleanu, forseti rúmenska sambandsins, hefur gefið út hvaða tillögur hann hyggst leggja fram á fundinum:
- Að fresta umspilinu fyrir EM sem áætlað er að fari fram í mars, sem og leikjum U21-landsliða.
- Að fresta EM sem áætlað er að hefjist 12. júní. Þannig skapist rými til þess að hægt verði að ljúka keppni í landsdeildum. Hlé er á keppni í rúmenskum fótbolta frá 12. mars til 31. mars hið minnsta.
- Að færa til þá lokadagsetningu sem heimilt er að spila á áður en keppnistímabilinu lýkur. Sú dagsetning er í dag 1. júní fyrir helstu deildir Rúmeníu.
- Að gefið verði svigrúm í skráningu rúmenskra liða í Evrópukeppnir fyrir næstu leiktíð, eftir því hvernig smitfaraldurinn þróast.