Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild kvenna í kvöld og unnu topplið deildarinnar bæði sína leiki. Í Keflavík voru Fjölnisstúlkur í heimsókn. Fór það svo að Keflavík vann 2-1 sigur þökk sé mörkum Paula Watnick og Natasha Anashi. Síðara mark Keflavíkur kom þegar sjö mínútur voru til leiksloka og staðan var 1-1 en Marta Björgvinsdóttir hafði jafnað metin fyrir Fjölni.
Dusan Ivkovic, þjálfari Fjölnis, fékk rautt spjald undir lok leiks og verður því í leikbanni í næsta leik liðsins. Axel Örn Sæmundsson, aðstoðarþjálfari Fjölnis, mun því stýra liðinu í næsta leik.
Keflavík er sem fyrr í 2. sæti deildarinnar á meðan útlitið er svart hjá Fjölni. Liðið situr í fallsæti, fimm stigum frá öruggu sæti.
Í Kópavogi var Tindastóll í heimsókn og fór það svo að gestirnir unnu 4-0 sigur á Augnablik. Eftir markalausan fyrri hálfleik þá vaknaði topplið Tindastóls í þeim síðari. Murielle Tiernan gerði tvö mörk, Jacqueline Altschuld gerði eitt og þá skoraði Elín Helana Karlsdóttir sjálfsmark.
Stólarnir því sem fyrr á toppi deildarinnar og fátt sem virðist ætla að koma í veg fyrir að þær muni spila í Pepsi Max deildinni á næsta ári.
Augnablik er hins vegar um miðja deild með 12 stig í 6. sæti.