Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) gaf kínverskum stjórnvöldum grænt ljós á að byrja að nota frumgerð af bóluefni við nýju afbrigði kórónuveirunnar þrátt fyrir að tilraunum með það væri enn ekki lokið í sumar. Bóluefnið var gefið hundruð þúsundum manns sem voru taldir gegna mikilvægum störfum eða vera viðkvæmir fyrir veirunni í sumar.
Zheng Zhongwei, fulltrúi heilbrigðisnefndar Kína, segir að neyðaráætlun þarlendra stjórnvalda hafi verið hrint í framkvæmd í júlí eftir samskipti við WHO í síðari hluta júní. Hann fullyrðir að áætlunin hafi notið „stuðnings og skilnings“ fulltrúa WHO í Kína.
Að minnsta kosti þrjú bóluefni í þróun voru samþykkt til notkunar á grundvelli neyðaráætlunar stjórnvalda í Beijing í sumar en þau eru öll á lokastigum tilrauna erlendis.
Reuters-fréttastofan segir að kínversk stjórnvöld hafi ekki gert frekari upplýsingar um neyðaráætlun sína opinberar. Ekki hafi náðst í talsmann WHO í Kína.
Yin Weidong, forstjóri kínverska lyfjafyrirtækisins Synovac, heldur því fram að bóluefnið sem fyrirtækir vinnur að og er eitt þeirra sem var samþykkt til neyðarnotkunar í Kína verði tilbúið til dreifingar á heimsvísu í byrjun næsta árs ef það gefur góða raun í síðasta hluta tilrauna í mönnum sem nú standa yfir.

„Markmið okkar er að skaffa heiminum bóluefninu, þar á meðal Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og öðrum,“ hefur AP-fréttastofan eftir Yin.
Kínversk bóluefni hafa átt erfitt uppdráttar vegna stífra reglna á vesturlöndum en Yin segir að þær verði engin fyrirstaða nú.
„Við erum fullviss um að rannsóknir okkar á bóluefni gegn Covid-19 standist kröfur í Bandaríkjunum og í Evrópusambandslöndum,“ segir forstjórinn.