Ráðamenn í bæði Armeníu og Aserbaídsjan saka hina um að hafa brotið gegn vopnahléi í Nagorno-Karabakh. Vopnahlé var samþykkt í upphafi helgarinnar eftir stíf fundarhöld deilandi fylkinga. Aserar segjast hafa orðið fyrir árásum stórskotaliðs í nótt og Armenarnir sem stjórna héraðinu segjast hafa varist árás Asera.
Þar að auki segjast Aserar hafa gert loftárás á sveitir Armena sem þeir saka um að hafa skotið eldflaug á íbúðarhús. Armenar segja ekkert til í því. Engri eldflaug hafi verið skotið og engin loftárás hafi verið gerð á sveitir þeirra, samkvæmt frétt Reuters.
Í frétt Reuters segir að ekki hafi reynst mögulegt að sannreyna áðurnefndar ásakanir um brot á vopnahléinu.
Armenía og Aserbaídsjan hafa lengi deilt um yfirráð í Nagorno-Karabakh í Kákakusfjöllum en stillt var til friðar með samkomulagi árið 1994. Rússar, Frakkar og Bandaríkjamenn hafa haft frumkvæði að því að miðla málum á milli ríkjanna síðan.
Héraðið er landlukt svæði á milli ríkjanna sem sem tilheyrir Aserbaídsjan formlega. Því er þó stjórnað af armenskum aðskilnaðarsinnum.
Átök hófust að nýju þann 27. september. Hundruð hafa fallið og þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín.
Vopnahlé tók gildi á laugardaginn og ákváðu Armenar og Aserar að skiptast á föngum og líkum þeirra sem fallið hafa í átökunum.
Viðræður ríkjanna munu halda áfram í Moskvu í dag. Þar mun Zohrab Mnatsakanyan, utanríkisráðherra Armeníu, ræða við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.