„Það er mjög misjafnt eftir því hvaða sjúkdóm barnið er með, hvaða meðferðir, hvaða hjálp, hvaða aðstoð er í boði og þjónusta og svoleiðis. Þetta er í rauninni svolítið skrítið,“ segir Sigurður Hólmar Jóhannesson, er einn af stofnendum samtakanna Góðvild.
„Við erum kannski með barn sem er með sjaldgæfan sjúkdóm, sem að fær rosalega takmarkaða þjónustu. Í fyrsta lagi er ekkert vitað um sjúkdóminn kannski, innan heilbrigðiskerfisins. Maður myndi halda að það færi einhver í það að afla sér upplýsinga um sjúkdóminn, en það er svolítið sett á foreldrana. Þessu þarf að breyta.“
Sérfræðingarnir fá ekki tíma
Sigurður er sjálfur faðir langveikrar stúlku, en hún er sú eina á Íslandi með AHC sjúkdóminn. Hann ræddi stöðu langveikra barna á Íslandi í síðasta þætti af Spjallið með Góðvild. Að hans mati væri auðvelt að breyta þessu á svona litlu landi eins og Íslandi.

„Þessu væri hægt að breyta með því að búa til þekkingarmiðstöð fyrir sjaldgæfa sjúkdóma, eins og er í löndunum í kringum okkur. Þá fara þessar fjölskyldur inn í þessa þekkingarmiðstöð, þar eru upplýsingar um sjúkdóminn, hvernig hann þróast, hvaða meðferðir eru í boði ef einhverjar eru og nýjustu rannsóknir. Allt þetta.“
Hann segir að þetta myndi ekki eingöngu gagnast fjölskyldunum, heldur líka sérfræðingunum.
„Þeir hafa ekki tíma eins og heilbrigðiskerfið á Íslandi er byggt upp, þá hafa þeir ekki tíma til þess að grúska í þessu og reyna að finna upplýsingarnar. Því miður. Þeir vilja það, en þá verða þeir að gera það heima hjá sér, á sínum tíma. Þeir hafa ekkert tíma á meðan þeir eru að vinna inni á spítölunum.“
Enginn grípur þennan hóp
Fyrr í mánuðinum var hann í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni ásamt Þórunni Evu umsjónarkonu þáttanna. Þar auglýsti hann eftir þingmanni eða ráðherra til að taka málin í sínar hendur.
„Ástæðan fyrir því að við settum af stað Spjallið með Góðvild er akkúrat til að taka á svona málum og sjá hvort að það sé einhver sem hafi hugrekkið til að taka málið aðeins lengra.“
Hann vonar að þingmaður eða ráðherra, hugsanlega barnamálaráðherra, taki að sér að byrja og koma þessu af stað.
Síðustu vikur hafa foreldrar langveikra barna sagt frá því í viðtölum í þáttunum Spjallið með Góðvild, að það vanti einhvern til að grípa þennan hóp. Ein móðir sagði frá því að hún hefði flúið land með son sinn til að fá betri heilbrigðisþjónustu.
„Veik börn eiga ekki að fá mismunandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu,“ segir Sigurður í samtali við Vísi. Hann gagnrýnir að það fari eftir greiningu barnsins, hvernig aðstoð foreldrarnir fá. Hann fagnar því að umræðan um stöðu langveikra barna sé meira í umræðunni, en enn sé langt í land.
Hann segir að foreldrar langveikra barna með sjaldgæfa sjúkdóma þurfi sjálf að leita eftir þekkingu og rannsóknum og koma því áfram til sérfræðinganna í heilbrigðiskerfinu og lækna barnsins. Þetta sé mikið álag.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.