Það hæfir hrútnum Höfðingja vel að heita Höfðingi því hann er mikill Höfðingi heima að sækja enda mjög gæfur og með risa horn, sem vekja mikla athygli. Höfðingi, sem er ferhyrndur býr á Akranesi.
Höfðingi býr í fjárhúsahverfinu á Akranesi þar sem nokkrir tómstunda bændur eru með kindurnar sínar. Hann unir sér vel innan um kindurnar, sem Elín Jónasdóttir á en dóttir hennar, Emelía Elín og barnabörnin hjálpa henni mikið með féð. Höfðingi er þriggja vetra, mjög gæfur og alltaf kurteis við kindurnar og þá sem að heimsækja hann.
„Hann er mjög fallega hyrndur og bara og sjaldan sem maður sér eins hreinlegan ferhyrndan hrút,“ segir Elín.

Höfðingi vekur athygli allra, sem sjá hann.
„Já, það hafa margir mjög mikinn áhuga á að taka myndir af honum og það er voðalega gaman að sjá myndir af honum hér á Akranes síðunni,“ segir Emelía Elín, sem segir að Höfðingi verið notaður á eitthvað af kindunum yfir fengitímann núna í desember.

Emelía segir að þær mægður séu með 27 kindur og þetta sé mjög gefandi áhugamál.
„Þetta er rosalega skemmtilegt og líka mjög gefandi fyrir börnin til að læra á lífið, þau allavega vita að kjötið kemur ekki bara úr búðinni.“

En ætlar Emelía að gera eitthvað með hornin af Höfðingja þegar þar að kemur?
„Já,, hann fer upp á vegg í stofunni, ég er búin að fá tilboð í hausinn á honum fyrir sjötíu þúsund krónur, hann verður sem sagt stoppaður upp þegar hans tími kemur og verður settur upp á veggheima hjá mér hér á Akranesi,“ segir Emelía Elín.
