Anna Þorsteinsdóttir hefur verið ráðin þjóðgarðsvörður á norðurhálendi Vatnajökulsþjóðgarðs með aðsetur á Mývatni.
Frá þessu segir á vef Vatnajökulsþjóðgarðs, en Anna tekur við starfinu af Jóhönnu Katrínu Þórhallsdóttur sem hefur starfað sem hálendisfulltrúi og seinna sem þjóðgarðsvörður á svæðinu síðan 2017.
„Anna er með BA próf í samfélags- og hagþróunarfræði og diplóma í lýðheilsuvísindum og er nú að ljúka meistaranámi í stjórnun og stefnumótun við Háskóla Íslands. Ráðgert er að Anna hefji störf fljótlega.
Anna þekkir Vatnajökulsþjóðgarð vel og hefur starfað sem landvörður og yfirlandvörður á vestur- og norðursvæði þjóðgarðsins í fjölmörg sumur. Auk þess hefur Anna starfsreynslu sem forstöðumaður félagsmiðstöðvar, staðarhaldari í Þórsmörk og leiðsögumaður.
Staðan var auglýst þann 11. september sl. og alls bárust 23 umsóknir. Vatnajökulsþjóðgarður býður Önnu velkomna til starfa,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir ennfremur að Jóhanna Katrín verði þjóðgarðinum áfram til halds og traust og tekur við sérfræðiverkefnum innan þjóðgarðsins.