Rósu Guðný Þórsdóttur leikkonu þekkja margir af fjölunum og eflaust muna einhverjir eftir andlitinu frá því að hún var sjónvarpsþula á RÚV. Rósa starfar sem leikstjóri í hljóðstúdeói Sýrlandi og er þessa dagana að vinna að talsetningu á nýrri Disney mynd. Vikulega hittir hún tíu aðrar leikkonur á netinu þar sem þær gleyma sér um stund með Shakespeare en alla morgna dreymir hana um að vakna eldhress og dansa fram í eldhús.
Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Klukkan hringir klukkan átta, stundum fyrr, ef ég ætla að skella mér í sturtu, sem ég geri alls ekki alltaf. Ég er ekki mjög morgunhress, á það jafnvel til að vera morgunfúl og vel því frekar kvöldsturtu.
Ég á mér þann draum að vakna eldhress, stökkva fram úr rúminu, brosa í spegilinn, dansa fram í eldhús og fá mér eitthvað girnilegt í morgunmat. Það gerist vonandi einn daginn. Hef verið að þróast úr B manneskju í A hægt og rólega, svo það hjálpar kannski til.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Það fyrsta sem ég geri er að knúsa tíkina mína, hana Týru. Hún kemur alltaf hlaupandi til mín þegar ég vakna og knúsar mig í klessu, svo hoppar hún upp í aftur og sefur fram að hádegi.
Síðan fæ ég mér morgunkorn, frekar af þörf en löngun. Verð að fá eitthvað í magann á morgnana.
Þá er það, vítamín og lýsi, góður kaffibolli að sjálfsögðu og spjall við eiginmanninn, sem gengur oftast út á svefn næturinnar og hvað á að hafa í matinn og annað daglegt umstang.“
Hvað er eftirminnilegasta hlutverkið sem þú hefur verið í?
„Þau eru öll eftirminnileg á sinn hátt. Ómögulegt að gera upp á milli, þó sum séu kannski ofar í minninu en önnur. Glíman við stóru rullurnar trónir kannski efst, eins og Nóru í Brúðuheimilinu og Blanche í Sporvagninum. Svo er eitt sem mér þykir óskaplega vænt um en það var Móðir Vitka Týra í Dal hinna blindu.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
Ég er að undirbúa talsetningar á tveimur bíómyndum. Annars vegar nýrri Disney mynd, Raya and the last Dragon, og hins vegar mynd frá Warner um þá félaga Tomma og Jenna. Ég er að huga að leikaravali, sem er alltaf dálítill höfuðverkur. Skiptir miklu máli að vanda valið. Svo erum við að vinna jólaefni fyrir RUV og sitthvað fleira.
Þess utan tek ég þátt í Shakespeare-leiksmiðju. Við hittumst tíu leikhúslistakonur einu sinni í viku í tölvuheimum eftir að raunheimar lokuðust og skoðum leikrit og texta eftir Shakespeare. Þar eigum við alveg dásamlegar stundir með skáldinu góða og hvor annarri. Lærum allt um jamba, stakhendur og annað sem er gott að kunna skil á.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Skipulagið fer alveg eftir verkefnum hverju sinni. Stundum eru þau ærin, og þá er ég kannski að hoppa á milli verkefna.
Dagurinn byrjar á því að kíkja í tölvupóstinn og svara þeim allra nauðsynlegustu, skoða þýðingar sem hafa borist og horfa á nýtt efni.
Oft eyði ég heilu og hálfu dögunum í leikstjórn í stúdíói. Ég þarf líka alltaf að horfa fram á veginn. Skipuleggja næstu viku eða vikur með þýðendum, leikurum og tæknimönnum. Ákveða á hverju skal byrja og hvað skal klára.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég reyni að fara upp í rúm uppúr klukkan ellefu á kvöldin, hvenær ég sofna er svo ansi misjafnt. Fer eftir bókinni, les alltaf eitthvað áður en ég svíf inn í draumalandið.“