Langþráð samgöngubót varð að veruleika í dag þegar 3,2 kílómetra kafli Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð, milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar, breikkaði úr tveimur akreinum í fjórar. Jafnframt voru akstursstefnur aðskildar með umferðareyju og vegriðum á milli. Þetta mátti sjá í fréttum Stöðvar 2.

Þetta liðlega tveggja milljarða króna verkefni, sem Ístak sá um, er stærsta umferðarmannvirki sem byggt hefur verið á Reykjavíkursvæðinu um árabil. Framkvæmdir hófust í maí 2019, fyrir átján mánuðum, umferð var hleypt á í fyrsta sinn í dag og er núna unnið að lokafrágangi.

Í útboðinu var einnig innifalin gerð nýrrar vegbrúar yfir Strandgötu, gerð tveggja göngubrúa yfir Reykjanesbraut við Ásland og Þorlákstún ásamt gerð umfangsmikilla hljóðvarna.

Þá markar framkvæmdin þau þáttaskil að kafli hennar, göngin undir Reykjanesbraut við Strandgötu, verður hluti Borgarlínunnar í framtíðinni og þannig fyrsti áfangi hennar sem klárast.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: